2008 í stuttu máli.

Árinu 2008 lauk á sama hátt og sama stað og það hófst, í góðu yfirlæti hjá Jóhönnu og Tedda á Faxastígnum. Þar var ég ásamt foreldrum mínum, Hjalla og Þórínu. Eftir að hafa verið hér í góðu yfirlæti yfir áramótin fór ég aftur austur þar sem vinnan og hversdagsleikinn biðu mín. Ég fékk pabba í fljótlega heimsókn til mín og skelltum við okkur á þorrablótið á Borgarfirði. Þetta var í fyrsta skipti sem að ég fer þar á blótið og ég var sko ekki svikinn. Í apríl byrjun komu síðan mamma og pabbi í heimsókn til mín til þess að gleðjast með mér (eða samhryggjast) á fertugsafmælinu mínu fimmta dag þess mánaðar. Kvöldið fyrir afmælið mitt fór ég með félögum mínum í RT-9 að Skjöldólfsstöðum þar sem þeir héldu sína árlegu vorgleði. Ég átti von á því að Smári félagi minn kæmi þangað því að hann ætlaði sér að mæta í afmælið mitt. En þegar hann birtist kom í ljós að tveir laumufarþegar höfðu slegist í för með honum, þeir Flóvent og Siggi og komu þeir mér þannig skemmtilega á óvart. Varð heimsókn þeirra hin besta. Í maíbyrjun flaug ég til London þar sem ég stoppaði í þrjá daga áður en ég fór til Skotlands þar sem ég átti langa helgi með félögum mínum í RT-11 víðsvegar úr Evrópu. Ég fór síðan heim til Eyja fyrstu helgina í júlí þar sem að pabbi hélt upp á 65 ára afmælið sitt um goslokahelgina. Ég hafði með mér góða ferðafélaga þau Þröst frænda minn og Hoffu sambýliskonu hans. Frábær helgi. Ættarmót var síðan haldið á Bogganum og komu Hjalli og Þórína þangað og skemmtum við okkur hið besta í góðra vina (og ættingja) hópi. Ég fór síðan að sjálfsögðu á Þjóðhátíðina. Síðla sumars skrapp ég síðan aftur á suðurlandið til þess að samgleðjast með henni Elínu frænku minni þegar að hún giftist honum Bjössa sínum. Í októberbyrjun lagði ég síðan aftur land undir fót en þá flutti ég búferlum til Reykjavíkur og hóf störf hjá Landspítalanum. Ég var síðan að vinna um jólin að vanda og kom heim til Eyja 28. des. til þess að vera hjá fjölskyldunni yfir áramótin.

Þetta var árið 2008 í nokkuð stuttu máli.

Ég vona að landsmenn allir svo og vinir mínir og ættingjar um heim allan eigi gleðilegt og friðsælt ár 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband